Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Úrskurður nr. 9 um ákvörðun Fiskistofu um sviptingu veiðileyfis.

Stjórnsýslukæra

Með bréfi, dags. 30. maí 2023, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, kærir [A ehf.],  f.h. [B ehf.] þá ákvörðun Fiskistofu, dags. 12. maí 2023, að svipta skipið [C], skipaskrárnúmer 2760, leyfi til veiða í atvinnuskyni í tvær vikur frá og með 12. júní 2023 til og með 25. júní 2023.

Kæruheimild er í 18. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

 

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 12. maí 2023, um að svipta skipið [C] leyfi til veiða í atvinnuskyni í tvær vikur frá og með 12. júní 2023 til og með 25. júní 2023.

 

 

Málsatvik

Málsatvikum er lýst í skýrslu veiðieftirlitsmanns Fiskistofu, dags. 29. nóvember 2021. Þar segir að þann 23. nóvember 2021, um kl. 13:40, hafi tveir veiðieftirlitsmenn verið við eftirlit á Húsavík. Þeir hafi veitt því athygli að fiskiskipið [C]var við veiðar á svæðinu og ákveðiðr að senda ómannað, fjarstýrt loftfar búið myndupptökubúnaði, til að fylgjast með veiðum skipsins. Tekið hafi verið á loft frá landi við Húsavíkurhöfða (66°03,15 N-17°21,32 W) og flogið um 4,8 km að skipinu sem var á línuveiðum í Skjálfandaflóa. Fljótlega eftir að eftirlitið hófst hafi sést skipverji í dráttarlúgunni, sem sé staðsett stjórnborðsmegin á skipinu, henda fiski fyrir borð og hafi þá myndupptökubúnaður flugfarsins virkjaður. Tekin hafi verið upp fimm myndbönd og sé samanlögð lengd þeirra um 44 mínútur. Á myndböndunum sjáist þegar skipverjar varpi afla sem komið hafði í veiðarfæri skipsins aftur í sjóinn, samtals 54 fiskum, þ.e. 49 þorskum, 4 ýsum og 1 steinbít. Meint brottkast hafi farið fram á tímabilinu 13:56-15:01 og hafi öllum aflanum verið hent stjórnborðsmegin í sjóinn. Einnig er málsatvikum þannig lýst í skýrslu veiðieftirlitsmanns Fiskistofu, dags. 31. maí 2022, að þann 30. maí 2022, um kl. 11:30, hafi tveir veiðieftirlitsmenn verið við eftirlit norðan við Húsavík. Þeir hafi veitt því athygli að fiskiskipið [C]hafi verið við veiðar á svæðinu og ákveðið að senda ómannað, fjarstýrt loftfar búið myndupptökubúnaði, til að fylgjast með veiðum skipsins. Tekið hafi verið á loft frá landi við þjóðveg 85, móts við Lundey (66°05,40 N-17°18 W), og flogið um 3,5 km að skipinu sem var á línuveiðum í Skjálfandaflóa. Fljótlega hafi eftirlitsmenn orðið vitni að því þegar skipverji, sem stóð við dráttaarlúgu stjórnborðsmegin, kastaði þorski fyrir borð og hafi þá myndupptökubúnaður flugfarsins verið virkjaður. Tekin hafi verið upp tvö myndbönd og sé samanlögð lengd þeirra um 13 mínútur. Á myndböndunum sjáist þegar skipverjar varpi afla sem komið hafði í veiðarfæri skipsins aftur í sjóinn, samtals 21 fiskum, þ.e. 11 þorskum og 10 steinbítum. Meint brottkast hafi farið fram á tímabilinu 11:54-12:19 og hafi öllum aflanum verið hent stjórnborðsmegin í sjóinn. Einnig sjáist á þeim sjö myndbandsupptökum sem liggi fyrir í málinu þegar skipverjar um borð varpi samtals 75 fiskum fyrir borð, þ.e. 60 þorskum, 11 steinbítum og fjórum ýsum. Af þeim sökum sé áhöfn skipsins [C]grunuð um að hafa brotið gegn ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996 með því að hafa ekki hirt og landað þeim 75 fiskum sem komið höfðu í veiðarfæri skipsins dagana 23. og 30. maí 2022.

Með bréfi, dags. 31. október 2022, var kæranda veittur andmælaréttur vegna áforma Fiskistofu um að svipta skipið [C] leyfi til veiða í atvinnuskyni. Þar var kæranda tilkynnt um að málið hafi verið tekið til meðferðar og málsatvikum lýst, leiðbeint um lagaatriði og aðila málsins gefinn kostur á að koma andmælum og athugasemdum á framfæri í samræmi við 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 áður en afstaða yrði tekin til þess hvort brot hafi verið framin og eftir atvikum hvort tekin skuli ákvörðun um viðurlög. Bárust athugasemdir kæranda 23. mars 2023.

Með bréfi, dags. 12. maí 2023, tók Fiskistofa ákvörðun um að svipta skipið [C] leyfi til veiða í atvinnuskyni í tvær vikur frá og með 12. júní 2023 til og með 25. júní 2023 og var ákvörðunin byggð á þeim málsatvikum og forsendum sem komu fram í bréfi stofnunarinnar til kæranda dags. 31. janúar 2023. Þar segir að í andmælum kæranda sé því haldið fram að afli sem áhöfn sé grunuð um að hafa varpað í sjó, í andstöðu við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, hafi verið verðlaus smáfiskur og þar með verið heimilt að varpa honum fyrir borð. Þeirri háttsemi sem áhöfn sé borin sökum um að hafa viðhaft hafi ekki verið mótmælt. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 468/2013 sé heimilt að varpa fyrir borð þeim fisktegundum sem ekki séu háðar takmörkun á leyfilegum heildarafla, enda verði þær ekki taldar hafa verðgildi. Við mat á því hvort tegund hafi verðgildi í skilningi 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 468/2013 sé litið svo á að tegund sem manneldismarkaður sé fyrir geti ekki talist án verðgildis. Manneldismarkaður sé fyrir þorsk, ýsu og steinbít og upplýsingar frá fiskmörkuðum bendi til þess að þar seljist umræddar tegundir og hafi verðgildi. Um tegundirnar gildi því skylda til að hirða þær og koma með að landi samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996 og að bannað sé að varpa þeim fyrir borð. Þær tegundir sem áhöfn sé grunuð um að hafa varpað fyrir borð í umræddum veiðiferðum, þ.e. þorskur, steinbítur og ýsa, séu jafnframt tegundir þar sem leyfilegur heildarafli sé takmarkaður af í skilningi 2. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006. Eigi því undantekningarákvæði 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar ekki við um þær tegundir. Af þeim sökum hafi sá tilgreindi afli sem komið hafði í veiðarfæri skipsins verið afli sem áhöfn skipsins var skylt að hirða og landa í skilningi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996. Sumir þeirra fiska sem féllu frá borði í umræddum veiðiferðum hafi vissulega virst vera undirmálsfiskur. Ástand afla eða stærð leysi áhöfn ekki undan skyldu sinni til að hirða og landa öllum afla sem komi í veiðarfæri í samræmi við framangreint ákvæði. Með vísun til framangreinds ítreki Fiskistofa að áhöfn skipsins [C]hafi verið skylt að hirða og landa öllum þeim afla sem kom í veiðarfæri skipsins umrædda daga, hvort sem hann var lítill eða verðlítill. Við meðferð málsins hafi þær myndbandsupptökur sem liggi fyrir í málinu verið yfirfarnar með athugasemdir kæranda í huga þar sem talning fiska, sem fram komi í málsatvikum, sé véfengd. Á þeim sjáist þegar skipverji varpi samtals 75 fiskum, sem komið höfðu í veiðarfæri í umræddum veiðiferðum aftur í sjóinn eins og fram komi í skýrslum veiðieftirlitsmanna og taki ákvörðun Fiskistofu mið af því. Þar fyrir utan sjáist þegar 13 fiskar, sem komið höfðu í veiðarfæri, falli aftur í sjó án þess að skilyrði um saknæmi séu uppfyllt og því um óhappatilvik að ræða að mati Fiskistofu. Þar af hafi fimm fiskar fallið af krókum við yfirborð sjávar og átta fiskar við rúllu á línuspili skipsins án þess að skipverji, er stóð við spilið, gæti brugðist við. Umræddir fiskar sem féllu af veiðarfærum án vilja skipverja, er stóð við spilið hafi því ekki verið taldir með og séu ekki hluti þess afla sem féll útbyrðis í andstöðu við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996 (75 fiskar). Fiskistofa fallist því ekki á andmæli kæranda hvað talningu varði. Háttsemi skipverja gefi sterklega til kynna að litlum fiskum af öðrum tegundum en sóknartegundum (þorsk og ýsu) hafi verið kastað útbyrðis. Í einhverjum tilvikum falli vænn og stór fiskur útbyrðis eða af krókum án vilja skipverja og þá sjáist til eins skipverja munda langan haka sem hann hafi notað til að veiða fiskinn úr sjónum og aftur um borð. Framganga hans endurspegli að mati Fiskistofu viðleitni áhafnar til að hirða vænni og verðmeiri afla en ella. Um starfsheimildir Fiskistofu séu ákvæði m.a. í lögum um Fiskistofu, lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða. Samkvæmt framangreindum lögum telji kærandi skýrt hvert eftirlitshlutverk Fiskistofu sé og að það standist ekki skoðun að stofnuninni hafi verið heimilt að fela veiðieftirlitsmönnum sínum víðtækari eftirlitsstörf, þ.e. með notkun fjarstýrðra loftfara áður en lög nr. 85/2022 tóku gildi í júlí 2022. Framangreind löggjöf geri ekki ráð fyrir starfsemi eftirlitsmanna við beitingu forvirkra rannsóknarheimilda í landi eða á hafi úti. Hafi engin lagaheimild verið til staðar til að framkvæma stjórnsýslueftirlit með þeim hætti að veiðieftirlitsmenn séu staðsettir í landi og sendi þaðan fjarstýrð loftför á haf út til þess að taka upp starfsemi á skipum og nýta gögn sem þannig sé aflað til málsmeðferðar í stjórnsýslumáli. Eftirlit Fiskistofu á grundvelli laga nr. 57/1996 sé bundið við þær starfsheimildir sem gildi um stofnunina og almennar meginreglur sem gildi um stjórnvöld og starfsemi á sviði löggæslu. Þá hafi kærandi vísað til þess að Landhelgisgæsla Íslands sinni löggæslu á hafi úti og að Fiskistofa hafi ekki almennar heimildir til fiskveiðieftirlits á hafi úti, heldur sé það beinlíns falið Landhelgisgæslunni, enda sé eftirlit með framkvæmd löggjafar á hafi úti löggæsluverkefni. Eftirlit Fiskistofu með fjarstýrðum loftförum á hafi úti fyrir gildistöku laga nr. 85/2022, falli því utan hlutverks og valdsviðs Fiskistofu. Þá hafi kærandi sagt að umrætt eftirlit Fiskistofu hafi í raun verið einhvers konar forvirk rannsókn í því skyni að kanna hvort lögbrot gætu verið til staðar án þess að sérstakt tilefni væri til þess, og bent á að lögreglan hafi ekki slíkar heimildir. Hafi slíkt eftirlit Fiskistofu því skort skýran lagagrundvöll fyrir júlí 2022. Kærandi telji að upphaf stjórnsýslumálsins, rannsókn þess og málsmeðferð Fiskistofu hafi ekki samræmst þeim lagaheimildum sem giltu um starfsemi Fiskistofu fyrir setningu laga nr. 85/2022. Beri því að fella málið niður, enda leiði af meginreglum stjórnsýsluréttar að ólögmætar rannsóknaraðgerðir stjórnvalds verði ekki taldar grundvöllur ákvarðanatöku í stjórnsýslumáli.

Fiskistofa sé stjórnsýslu- og eftirlitsstofnun og sinni starfsmenn stofnunarinnar hvorki löggæslustörfum né eru handhafar löggæsluvalds í skilningi 9. gr. laga nr. 90/1996. Löggjafinn hafi veitt Fiskistofu rúmar heimildir til eftirlits eins og nánar sé kveðið á um í lögum um Fiskistofu, lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða. Eðli málsins samkvæmt fari eftirlit Fiskistofu með fiskveiðum og vigtun sjávarafla, fram jafnt á hafi sem og í landi. Málatilbúnaður Fiskistofu byggi á skýrslu veiðieftirlitsmanna Fiskistofu þar sem þeir lýsi því sem þeir upplifi af eigin raun við skyldustörf. Veiðieftirlitsmenn séu sérfróðir opinberir starfsmenn sem hafi bæði reynslu og þekkingu af sjómennsku og hafi enga hagsmuni af úrlausn mála. Eftirlitsaðferðin í umrædd skipti hafi falist í því að veiðieftirlitsmenn höfðu eftirlit með aðstoð dróna þar sem myndefnið hafi verið sýnilegt þeim í rauntíma en einnig hafi myndefnið að hluta til tekið upp. Um hafi verið að ræða atviksbundið eftirlit með veiðum skipsins umrædda daga sem hafi hvorki verið viðvarandi né endurtekið reglulega og teljist því ekki til rafrænnar vöktunar í skilningi laga nr. 90/2018. Þrátt fyrir að meint atvik hefðu ekki verið tekin upp standi sönnunargildi frásagnar veiðieftirlitsmanna sem mál þetta byggi á. Það sé hins vegar í þágu réttaröryggis kæranda að umrædd atvik hafi verið tekin upp. Umrædd myndbönd sýni með skýrum hætti þá háttsemi sem viðhöfð hafi verið um borð í skipinu 23. nóvember 2021 og 30. maí 2022. Um sé að ræða hlutlæg sönnunargögn sem að mati Fiskistofu hafi mikið vægi til stuðnings skýrslu veiðieftirlitsmanna Fiskistofu. Fiskistofa sinni eftirliti með aðstoð þeirrar tækni og þeim tækjakosti sem í boði sé á hverjum tíma sem stuðli að skilvirkara eftirliti í samræmi við lögbundin verkefni stofnunarinnar og sjónarmið um ábyrga ráðstöfun opinbers fjár. Hafi veiðieftirlitsmenn í mörg ár viðhaft eftirlit með fiskveiðum frá landi, s.s. með sjónaukum og myndavélum og hafi slíkt eftirlit talist rúmast innan starfsheimilda þeirra og ekki verið fundið að slíkum eftirlitsaðferðum í drónaframkvæmd hér á landi. Að mati Fiskistofu hafi eftirlit með veiðiferðum skipsins [C]verið innan eftirlitsheimilda stofnunarinnar fyrir gildistöku laga nr. 85/2022 og megi líkja við eftirlit með sjónauka frá landi, enda byggi í báðum tilvikum mál stofnunarinnar á vitnisburði eftirlitsmanna sem þeir hafi upplifað af eigin raun. Eftirlit með fiskveiðum falli ekki einvörðungu undir löggæsluverkefni, þó svo eftirlit með fiskveiðum sé meðal þeirra verkefna Landhelgisgæslunnar. Af þeim sökum sé ekki fallist á rök kæranda um að veiðieftirlitsmenn Fiskistofu hafi farið út fyrir starfsheimildir sínar með umræddri eftirlitsaðferð eða að það sé einungis Landhelgisgæslan sem sinni fiskveiðieftirliti á hafi úti. Svo þröng túlkun á eftirlitsheimildum Fiskistofu sé að mati stofnunarinnar óeðlileg með hliðsjón af eðli fiskveiða og eftirlitshlutverki Fiskistofu. Fiskistofa hafni því að rannsóknaraðgerðir stofnunarinnar hafi verið ólögmætar og verði þær ekki taldar grundvöllur ákvarðanatöku í stjórnsýslumáli þessu. Jafnvel þó svo til staðar væru hugsanlegir annmarkar á rannsóknaraðgerðum stjórnvalds, leiði það ekki til þess að um verulegan annmarka á málsmeðferð sé að ræða sem valdi hugsanlegri ógildingu stjórnvaldsákvörðunar. Í þessu samhengi hafi réttarvörslusjónarmið og sjónarmið um almenn varnaðaráhrif mikið vægi. Hafi öryggisregla (s.s. rannsóknarregla) verið brotin valdi það ógildingu ákvörðunar stjórnvalds nema sannanlegt sé að annmarkinn hafi í raun ekki haft áhrif á efni hennar. Á stjórnvaldi hvíli ríkar sönnunarkröfur í þessu samhengi um að meta hvort fyrir liggi orsakasamband milli brots á málsmeðferðarreglu og efni ákvörðunar, þ.e. hvort að ákvörðunin hefði orðið efnislega hin sama hefði umrædd málsmeðferðarregla ekki verið brotin. Fari matið eftir ströngum ógildingarmælikvarða enda íþyngjandi ákvörðun í húfi sem beinist gegn kæranda. Málatilbúnaður Fiskistofu byggi í grunninn á vitnisburði tveggja veiðieftirlitsmanna sem hafi orðið vitni að brotum áhafnar í beinu streymi og geti Fiskistofa ekki litið framhjá því og aðhafst ekkert í andstöðu við lögbundnar skyldur sínar. Þó svo meint brot hefðu ekki verið tekin upp standi eftir vitnisburður eftirlitsmanna og skýrslur þeirra. Af þeim sökum telji Fiskistofa að hugsanlegur annmarki á þeim rannsóknaraðferðum sem viðhafðar hafi verið í máli þessu myndi ekki breyta niðurstöðum málsins efnislega. Sú meginregla gildi í íslensku sakamálaréttarfari að aðilum máls, þ.á m. ákæruvaldinu, sé heimilt að leggja fram við meðferð máls fyrir dómi þau sönnunargögn, sem þýðingu kunni að hafa við úrlausn málsins, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Í íslenskum rétti sé hvergi að finna reglu sem leggi bann við því að sönnunargögn, sem aflað hafi verið með ólögmætum hætti, séu lögð fram í sakamáli, né sé þar að finna reglu sem bindi hendur dómara við mat á gildi slíkra gagna, sbr. m.a. Hrd. 2006, bls. 1051 (97/2006). Þó svo annmarkar kunni að vera á öflun gagna leiði það ekki sjálfkrafa til þess að litið sé framhjá þeim sönnunargögnum, sem aflað hafi verið undir slíkum aðstæðum, sbr. m.a. Hrd. 2004, bls. 2147 (325/2003) og Hrd. 2005, bls. 5165 (323/2005). Hafi sama viðhorf verið ríkjandi hjá Mannréttindadómstól Evrópu, að þó svo sönnunargagna hafi verið aflað með ólögmætum hætti komi það ekki í veg fyrir að stuðst sé við þau þegar skorið sé úr um sekt eða sýknu ákærða í sakamáli. Fiskistofa telji, með vísan til framangreinds að sömu sjónarmið eigi við um rannsókn stjórnsýslumála og öflun sönnunargagna í þeim og mat stofnunarinnar á þeim, með þeim fyrirvara að niðurstaða hefði efnislega orðið hin sama hefði umrædd málsmeðferðarregla ekki verið brotin. Í þessu samhengi séu eitt af þeim atriðum sem Fiskistofa horfi til við mat á gildi einstakra sönnunargagna, hvernig staðið hafi verið að öflun þeirra og það metið með hliðsjón af fyrirmælum 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um réttláta málsmeðferð. Í tilviki kæranda sé ljóst að hann hafi verið meðvitaður um að Fiskistofa hafði tekið í notkun dróna við eftirlit áður en hann hélt til veiða í fyrra skiptið, 23. nóvember 2021. Kærandi hafi í athugasemdum sínum vísað til þess að Fiskistofa hafi farið út fyrir starfsheimildir sínar og umrætt eftirlit hafi falið í sér brot gegn lögum nr. 90/2018 og lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi nr. 75/2019 og væri það staðfesting um að Fiskistofa hafi ekki heimild til myndbandsupptaka nema á grundvelli sérstakra lagaheimilda, sem ekki hafi verið til staðar fyrir gildistöku laga nr. 85/2022. Að mati kæranda, og með hliðsjón af samskiptum Fiskistofu við Persónuvernd frá 2. júlí 2020, hafi hvorki skilyrði 3. eða 5. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2018 verið uppfyllt við vinnslu persónuupplýsinga við umrætt eftirlit. Í þeim samskiptum komi fram að vinnsla Fiskistofu þyrfti að vera nauðsynleg. Að mati kæranda hafi það skilyrði ekki verið uppfyllt, enda hafði löggjafinn ekki gert ráð fyrir því að Fiskistofa sinnti eftirlitshlutverki sínu með notkun dróna á umræddum tíma. Fiskistofa hafi hins vegar haft aðrar heimildir, sem afmarki hvaða úrræði hafi verið nauðsynleg og ásættanleg út frá meðalhófssjónarmiðum, s.s. að hafa veiðieftirlitsmann um borð ef tilefni þótti til. Ljóst sé að Persónuvernd hafði ekki tekið efnislega afstöðu til þeirrar vinnslu sem Fiskistofa hafi hafið. Í ljósi eftirlitsaðferðar Fiskistofu í umræddum veiðiferðum, þ.e. drónaeftirlit með starfandi sjómanni á hafi úti honum að óvörum, og án lagaheimildar til þeirrar vinnslu persónuupplýsinga, hafi kærandi mótmælt frekari málsmeðferð Fiskistofu. Viðeigandi undirbúningur og fræðsla hafi átt sér stað til að tryggja sanngjarna og gagnsæja vinnslu. Þann 7. janúar og 15. febrúar 2021 hafi verið tilkynnt á vefsíðu Fiskistofu um þá nýjung að notast við dróna í eftirliti með fiskveiðum. Þar hafi komið fram að eftirlit með notkun dróna myndi nú verða hluti af hefðbundnu eftirliti Fiskistofu. Upplýst hafi verið um að Fiskistofa hafi unnið mat á áhrifum vinnslunnar á persónuvernd (MÁP), sbr. 29. gr. laga nr. 90/2018 og að veiðieftirlitsmenn Fiskistofu sem sinntu eftirliti með notkun dróna hafi fengið sérstaka fræðslu um persónuvernd. Þá hafi erindi Fiskistofu og Persónuverndar verið birt 19. febrúar 2021 á vefsíðu Fiskistofu í kjölfar umfjöllunar í fjölmiðlum um notkun dróna í eftirliti Fiskistofu. Með bréfi, dags. 14. október 2021, hafi Fiskistofa upplýst kæranda, útgerðaraðila og eiganda, skipsins [C], um að slíkt eftirlit hafi verið viðhaft með skipinu þann 30. september 2021 og að sést hafi til skipverja varpa fyrir borð 18 fiskum í umræddri veiðiferð. Hafi kæranda verið leiðbeint um skyldu áhafnar til að hirða og landa öllum afla sem komi í veiðarfæri og þeim tilmælum beint til útgerðarinnar að tryggja framvegis að framkvæmd veiða bryti ekki í bága við ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996. Fiskistofa hafi komið því opinberlega á framfæri að drónar yrðu nýttir við eftirlit með fiskveiðum og einnig sérstaklega gagnvart eiganda og útgerðaraðila skipsins þann 14. október 2021. Að þessu leyti hafi umrædd vinnsla persónuupplýsinga Fiskistofu samrýmst 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 1.-2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018 um gagnsæi og fræðsluskyldu. Lög nr. 75/2019 gildi um vinnslu persónuupplýsinga hjá lögbærum yfirvöldum sem fram fari í löggæslutilgangi. Lögbundin verkefni Fiskistofu séu ekki í löggæslutilgangi. Af þeim sökum taki framangreind lög ekki til verkefna Fiskistofu. Að eftirlitshlutverk og heimildir Fiskistofu sé metið í samhengi við eftirlitshlutverk og heimildir lögreglu eigi ekki við.

Fiskistofa hafi tilkynnt eftirlitsskyldum aðilum um breytta eftirlitsaðferð með nýrri tækni í samráði við Persónuvernd. Á þeim tíma sem umrædd eftirlitsaðferð í máli þessu var viðhöfð hafi Fiskistofa talið hana rúmast innan heimilda stofnunarinnar og að vinnsla á upplýsingum um refsiverðan verknað í þágu eftirlits með fiskveiðum, félli undir lögbundið hlutverk stofnunarinnar í skilningi 3. og 5. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2018. Fiskistofa hafni staðhæfingum kæranda um að umrætt eftirlit hafi komið þeim sjómönnum sem fyrir hann starfi að óvörum Þeir sem stundi fiskveiðar í atvinnuskyni undirgangist opinbert eftirlit. Um sé að ræða leyfisskylda atvinnustarfsemi og þeir sem hana stundi séu meðvitaðir um að veiðar þeirra lúti eftirliti Fiskistofu. Af þeim sökum verði þeir sem stunda fiskveiðar í atvinnuskyni að þola röskun á friðhelgi sinni eftir þeim sérstöku lagaheimildum sem Fiskistofa vinni eftir við lögbundin eftirlitshlutverk sín. Takmörkun á friðhelgi einkalífsins í þessu ljósi byggi á málefnalegum forsendum um verndun auðlinda hafsins og almannahagsmuni sem fólgnir séu því eftirliti sem Fiskistofa viðhafi. Eftirlitið beinist að takmörkuðum hópi eftirlitsskyldra aðila og hafi kærandi haft vitneskju um eftirlitið en eftirlitið hafi ekki gengið lengra en nauðsyn bar til í tilviki kæranda. Af þeim sökum hafni Fiskistofa því að umrædd eftirlitsaðferð hafi ekki rúmast innan heimilda stofnunarinnar, þ.e. innan þess ramma sem lögmætisregla stjórnsýsluréttar og 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs setji. Þá vísi kærandi til þess að Fiskistofa heyri undir ráðherra sem hafi yfirumsjón með skýringu löggjafar um starfsemi stofnunarinnar. Vísi kærandi í því samhengi til 3. og 5. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu sem kveði á um að ráðherra sé m.a. ætlað að setja reglugerð um nánara skipulag og starfsemi Fiskistofu og reglugerð um gjaldskrá fyrir þjónustu og eftirlit sem Fiskistofu sé falið að sinna samkvæmt lögum. Að mati kæranda hafi Fiskistofa því ekki getað tekið upp nýjar eftirlitsaðferðir án þess að afstaða ráðherra væri fyrirliggjandi. Jafnframt hafi ákvörðun Fiskistofu um að taka í notkun dróna við eftirlit verið í ósamræmi við meginsjónarmið um breytingu stjórnsýsluframkvæmdar. Fiskistofa byggi eftirlitsheimildir sínar á gildandi lögum og reglum settum samkvæmt þeim á hverjum tíma. Þegar fjarstýrð loftför hafi verið tekin í notkun, m.a. við lögbundið eftirlit Fiskistofu með fiskveiðum, hafi sú framkvæmd ekki verið háð sérstöku leyfi en verið tilkynnt til ráðherra/ráðuneytis áður en eldri framkvæmd hafi verið breytt. Að svo miklu leyti sem löggjafinn hafi ekki nýtt vald sitt til að mæla fyrir um það í lögum eða ráðherra með almennum- eða sérstökum stjórnunarúrræðum sínum, með hvaða hætti Fiskistofa sinni verkefnum sínum, falli það í hlut forstöðumanns stofnunar, s.s. að ákveða með hvaða hætti lögbundnu eftirliti sé háttað og með hvaða tækjum og búnaði. Breytt eftirlitsaðferð Fiskistofu hafi verið kynnt með áberandi hætti með tilkynningum á heimasíðu stofnunarinnar og hafi jafnframt birst fjölmargar fréttir um málefnið í fjölmiðlum. Þegar stjórnvöld breyti þekktri stjórnsýsluframkvæmd án þess að reglum sé breytt sé það óskráð meginregla í stjórnsýslurétti að stjórnvöldum beri að kynna breytinguna fyrirfram þannig að þeir aðilar sem málið varði geti brugðist við og gætt hagsmuna sinna. Þegar slíkar breytingar séu íþyngjandi gagnvart borgurunum sé í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti gerð sú krafa til stjórnvalda að breytingarnar séu kynntar með skýrum og glöggum hætti og með nægjanlegum fyrirvara svo að þeir sem breytingarnar varði hafi raunhæft tækifæri til að gera viðeigandi ráðstafanir og bregðast við breyttri framkvæmd. Sú breytta framkvæmd að taka í notkun dróna við eftirlit hafi verið kynnt með almennum tilkynningum á heimasíðu Fiskistofu í samræmi við framangreindar kröfur, í upphafi árs 2021. Hafi málið jafnframt hlotið mikla fjölmiðlaumfjöllun. Þar að auki hafi kærandi fengið sérstaka tilkynningu í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með leiðbeiningabréfi, dags. 14. október 2021 (2021-10-01-2519). Að mati Fiskistofu hafi kærandi því fengið sanngjarnt tækifæri til að aðlaga sig að breyttri framkvæmd og breyttum eftirlitsaðferðum Fiskistofu og sé því hafnað staðhæfingum kæranda um að hin nýja eftirlitsaðferð Fiskistofu hafi verið í ósamræmi við meginsjónarmið um breytingu stjórnsýsluframkvæmdar. Samkvæmt upplýsingum kæranda hafi Fiskistofa sent út fjölda bréfa um meint brottkast á fiski, þar sem byggt sé á upptökum úr dróna eftirliti fyrir gildistöku laga nr. 85/2022. Að mati kæranda sé ósamræmi í málsmeðferðum Fiskistofu um hvort mál sé látið niður falla eða ekki. Virðist sem Fiskistofa aðvari suma oft vegna brottkasts á stórum fiski og öðrum sé hótað þótt um hafi verið að ræða algjörlega verðlausan fisk. Með vísan til sjónarmiða um jafnræði geri kærandi þá kröfu að mál þetta verði fellt niður. Þegar Fiskistofa hafi hafið notkun dróna við eftirlit með brottkasti í upphafi árs 2021 hafi í kjölfarið öllum hlutaðeigandi útgerðum verið leiðbeint ef grunur vaknaði um brot. Hafi sams konar brottkast mál verið afgreidd á sama máta í samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Ákveðið hafi verið að fara hægt í sakirnar og gefa þeim sem stundi fiskveiðar í atvinnuskyni forsvaranlegan tíma og svigrúm til að aðlagast breyttum eftirlitsaðferðum stofnunarinnar í samræmi við þá leiðbeiningarskyldu sem leiðir af 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af þessum sökum hafi fjölmörg af þeim málum sem upp hafi komist um, eftir að drónaeftirlit hófst, verið afgreidd með leiðbeiningum. Hafi það átt við ef um fyrsta brot var að ræða frá því að umrædd eftirlitsaðferð var tekin í notkun, og það átt við um kæranda. Í tilviki kæranda hafi honum borist slík leiðbeining 14. október 2021. Um hafi verið að ræða meint brottkast á 18 fiskum í veiðiferð skipsins þann 30. september 2021. Þrátt fyrir það hafi áhöfn kæranda aftur orðið uppvís að meintu brottkasti í tvígang og mál þetta byggir á.

Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, segi að skylt sé að hirða og koma með að landi allan afla sem komi í veiðarfæri fiskiskipa. Ráðherra geti þó heimila með reglugerð að fiski af verðlausum tegundum sé ekki landað heldur varpað í sjóinn, sbr. reglugerð nr. 468/2013, um nýtingu afla og aukaafurða. Slík reglugerðarákvæði skuli túlkuð þröngt. Brot gegn 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996 geti varðað stjórnsýsluviðurlögum, þ.e. sviptingu leyfis til veiða í atvinnuskyni samkvæmt 1. og 2. mgr. 15. gr. lag nr. 57/1996 eða skriflegum áminningum samkvæmt 3. mgr. 15. gr. sömu laga. Þá geti brot gegn 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996 jafnframt varðað refsingum, sektum eða fangelsi allt að 6 árum, samkvæmt 23. gr., sbr. 24. gr. sömu laga. Brot gegn 2. mgr. 2. gr. telst fullframið hvort sem það sé framið með refsinæmri athöfn eða athafnaleysi og hvort sem það sé framið af ásetningi eða gáleysi. Þá sé í 24. gr. laganna lögfest hlutlæg refsiábyrgð fyrir brot gegn ákvæðum laganna. Eins og að framan greini hafi áhöfn skipsins [C]orðið uppvís að brottkasti í tvígang úti fyrir Húsavík í Skjálfandaflóa, annars vegar 23. nóvember 2021 og hins vegar 30. maí 2022. Á umræddum myndbandsupptökum sjáist þegar 75 fiskar, sem skylt sé að hirða og landa, falli útbyrðis og taki ákvörðun Fiskistofu mið af því. Við meðferð málsins hafi m.a. skýrslur veiðieftirlitsmanna, lögmæti eftirlits og starfsheimildir Fiskistofu verið dregnar í efa. Markmið málsmeðferðar stofnunarinnar sé að leiða hið sanna og rétta í ljós með hliðsjón af þeim sönnunarkröfum sem gildi í stjórnsýslumálum en um þau gildi almennar sönnunarreglur. Umrædd myndbönd styðji glöggt við vitnisburð og skýrslur eftirlitsmanna og sýni svo ekki verði um villst að tilgreindur afli hafi fallið fyrir borð í umræddu fiskiskipi umrædda daga fyrir tilstilli skipverja um borð. Um sé að ræða hlutlæg sönnunargögn sem að mati Fiskistofu hafi töluverða þýðingu við úrlausn málsins. Sönnunargildi og áreiðanleiki þeirra vegi þungt í því heildarmati sem Fiskistofa leggi á málið við ákvörðun sína. Að mati Fiskistofu teljist mál þetta vera nægilega upplýst og atvik og staðreyndir málsins, sem þýðingu hafi að lögum, vera sönnuð, með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til málsatvika og eðlis brota, vitnisburðar veiðieftirlitsmanna, gagna málsins og þess sem að framan greini sé það niðurstaða Fiskistofu, að áhöfn fiskiskipsins [C], hafi brotið gegn 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar með því að hafa ekki hirt og landað þeim tilgreinda afla sem að framan sé fjallað um og komið hafði í veiðarfæri, í tveimur veiðiferðum skipsins, 23. nóvember 2021 og 30. maí 2022.

Í 1.-2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 segi að Fiskistofa skuli svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfi hafa brotið gegn ákvæðum laga þessara eða reglum settum samkvæmt þeim. Við fyrsta brot, sem varði sviptingu veiðileyfis, skuli leyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekuð brot skuli svipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en eitt ár. Í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 segi að þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. sama ákvæðis skuli Fiskistofa veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu vegna fyrsta minniháttar brots. Við mat á því hvort um minniháttar brot sé að ræða sé m.a. litið til þess hvort ætla megi að brot hafi í för með sér umtalsverðan ávinning fyrir hlutaðeigandi útgerð og/eða tengda aðila, fjölda brota og hversu miklum hagsmunum brot ógni og hvort það hafi verið framið af ásetningi eða gáleysi. Að sama skapi teljist brot meiriháttar ef verknaður sé framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auki mjög á saknæmi brots. Við ákvörðun viðurlaga verði að líta til markmiða laga nr. 57/1996 við mat á þeim hagsmunum sem brotin ógni. Lögunum sé ætlað að tryggja tvö meginatriði. Í fyrsta lagi að öllum afla sem komi í veiðarfæri skips sé landað í viðurkenndri höfn og í öðru lagi að allur afli sé veginn og skráður. Í máli þessu sé litið til þess að brotin hafi verið til þess fallin að hafa í för með sér ávinning fyrir hlutaðeigandi útgerðaraðila og/eða tengda aðila, þar sem verðmeiri eða söluvænlegri afli hafi verið tekinn að landi og aflaheimildum, eftir atvikum, ekki ráðstafað í þann afla sem kastað hafi verið. Brotin ógni jafnframt hagsmunum sem tengist aflaskráningu. Fiskveiðistjórnunarkerfið byggi á því að aflaskráning gefi rétta mynd af því hve mikið sé veitt úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og jafnframt hvort afli tiltekins skips sé innan veiðiheimilda þess. Mikilvægir almannahagsmunir séu jafnframt fólgnir í því að upplýsingar um veiðar úr nytjastofnum sjávar séu réttar svo hægt sé að áætla stofnstærð og hámarks afkastagetu. Góð umgengni um nytjastofna sjávar sé þýðingarmikil í því skyni að stuðla að því að þeir verði nýttir með sjálfbærum hætti er tryggi til langs tíma hámarksafrakstur fyrir íslensku þjóðina. Við mat á alvarleika brota líti Fiskistofa til fjölda fiska sem varpað hafi verið fyrir borð í umræddri veiðiferð, þ.e. 54 fiskar á 44 mínútum þann 23. nóvember 2021 og 21 fiskur á 13 mínútum þann 30. maí 2022. Jafnframt líti Fiskistofa til þeirrar staðreyndar að um tvær aðskildar veiðiferðir hafi verið að ræða þar sem brotin hafi verið framin á stuttum tíma í hvort sinn og þrátt fyrir fyrri leiðbeiningu Fiskistofu. Myndbönd þau sem liggi fyrir í málinu sýni með skýrum hætti framgöngu skipverja um borð í umræddum veiðiferðum, þegar þeir hafi varpað tilgreindum afla sem komið hafði í veiðarfæri skipsins aftur sjó, við dráttarlúgu skipsins stjórnborðsmegin. Af málsatvikum og gögnum málsins megi ætla að skipverjar hafi flokkað afla, sem hafi komið í veiðarfæri, eftir tegundum, stærð og verðgildi og látið hjá líða að hirða verðminni afla en hirt vænni afla. Jafnframt megi ætla að afli af öðrum tegundum en sóknartegundum (s.s. þorskur og ýsa), hafi frekar verið kastað útbyrðis en ella. Vinnubrögð skipverja og framganga gefi til kynna að um viðhöfð vinnubrögð sé að ræða en af myndbandsupptökum að dæma hafi aflanum verið kastað aftur í sjó að yfirlögðu ráði og án nokkurrar umhugsunar, af ásetningi í andstöðu við settar hátternisreglur í lögunum. Fiskistofa horfi í þessu samhengi til þess hvernig verknaðinum sjálfum hafi verið háttað, þeim hagsmunum sem verknaðurinn beindist að og verknaðaraðferðar í umrætt sinn. Hafi þar mátt sjá skipverja kasta fiskum ítrekað útbyrðis eftir að þeir voru dregnir inn fyrir borðstokk eða berja/losa þá af krókum með haka. Að mati Fiskistofu hafi brot skipverja verið alvarleg og gefi háttsemi þeirra í umræddum veiðiferðum sterklega til kynna að brottkast sé viðhaft um borð í umræddu skipi kæranda í andstöðu við hátternisreglur laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar og grundvallar markmið þeirra um sjálfbæra nýtingu fiskistofna og góða umgengni um auðlindir sjávar. Kærandi stundi fiskveiðar í atvinnuskyni og í hans þágu starfi menn sem hafi sjómennsku að atvinnu. Gera verði þá kröfu til áhafnar að háttsemi hennar og framgangsmáti endurspegli gegnan og skynsaman atvinnusjómann, með hliðsjón af þeim reglum sem gildi um fiskveiðar hverju sinni. Þá beri kærandi ábyrgð á því að veiðar fiskiskipa í hans útgerð séu í samræmi við gildandi lög og reglur og þá sérstaklega að framkvæmd veiða brjóti ekki í bága við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996. Það sé því á ábyrgð útgerðaraðila, að verklag við veiðar sé í samræmi við lög, um borð í þeim fiskiskipum sem hann geri út og að allur aðbúnaður og tækjakostur sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Það sé niðurstaða Fiskistofu að um alvarleg brot sé að ræða, framin á skömmum tíma og til hagsbóta fyrir kæranda, og hafi brotin verið meiriháttar með hliðsjón af magni afla sem varpað var frá borði og fjölda veiðiferða. Af þeim sökum komi hvorki áminning né lágmarks leyfissvipting til greina og að mati Fiskistofu sé svipting leyfis til veiða í atvinnuskyni hæfilega ákvörðuð þrjár vikur með hliðsjón af fyrri ákvörðunum Fiskistofu í sams konar málum. Nokkrar tafir hafi orðið á meðferð málsins hjá Fiskistofu sem kæranda verði ekki um kennt. Fyrra brot hafi átt sér stað í nóvember 2021 og niðurstaða málsins liggi fyrir nú um 18 mánuðum síðar. Þá séu engin fyrri brot sem hafi ítrekunaráhrif í máli þessu, en fyrri leiðbeining komi til skoðunar við saknæmis- og alvarleikamat. Að því virtu og á grundvelli alls þess sem að framan hafi verið rakið, telji Fiskistofa, með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, að umrædd brot varði sviptingu leyfis til veiða í atvinnuskyni, skv. 1., sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, í eina viku, enda ekki um að ræða minniháttar brot að ræða í skilningi 2. mgr. 2. gr. sömu laga. Ákvörðunin hafi ítrekunaráhrif í tvö ár frá og með dagsetningu ákvörðunar skv. 19. gr. laga nr. 57/1996.

Þá kom þar fram að ákvörðunina megi kæra til matvælaráðuneytisins innan eins mánaðar frá því að hún berist til kæranda, sbr. 18. gr. laga nr. 57/1996. Vakin var athygli á því að ákvörðunin verði birt opinberlega á heimasíðu Fiskistofu í samræmi við 9. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu.

 

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 30. maí 2023, kærði [A ehf.], f.h. [B ehf.] framangreinda ákvörðun til matvælaráðuneytisins.

Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að ágreiningur um málsatvik sé m.a. fólginn í því að kærandi véfengi greiningu Fiskistofu á myndbandsupptökum sem liggi málsmeðferð Fiskistofu til grundvallar. Þýðingarmest sé þó að umræddar myndbandsupptökur hafi verið gerðar áður en sérsök lagaheimild til slíkrar starfsemi Fiskistofu tók gildi. Áréttað sé að Persónuvernd hafi fjallað um starfsemi Fiskistofu í sambærilegum máli, sbr. úrskurð dags. 28. mars 2023. Efni þess úrskurðar varði einungis brot á persónuverndarlöggjöf, en forsendur þeirra brota séu að Fiskistofa hafi ekki haft heimild til myndbandsupptakanna miðað við þágildandi löggjöf um starfsemi Fiskistofu. Grundvallarsjónarmið kæranda sé að myndbandsupptökur Fiskistofu í málinu hafi ekki samræmst lögmætisreglunni. Fiskistofa geti ekki byggt málsmeðferð og íþyngjandi ákvarðanatöku á upptökum sem stofnuninni hafi ekki verið heimilt að afla samkvæmt þágildandi lögum um starfsemi Fiskistofu. Úrskurðurinn staðfesti brot Fiskistofu á persónuverndarlöggjöf. Stofnunin hafi farið út fyrir starfsheimildir sínar samkvæmt þágildandi löggjöf. Fiskistofa sé stjórnvald og séu að lögum falin tiltekin verkefni. Um starfsheimildir Fiskistofu gildi lög nr. 36/1992. Vegna umræddra mála hafi efni umræddra laga fyrir breytingarlög nr. 85/2022 þýðingu, en með þeim hafi stofnuninni verið fengnar víðtækari heimildir til starfsemi m.a. til notkunar fjarstýrðra loftfara í eftirlitsstörfum, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, eftir breytingarlög nr. 85/2022. Um starfsheimildir stjórnvalda gildi að starfsemi þeirra verði að byggja á lögum og samræmast þeim lagaheimildum sem um stjórnvaldið gildi. Einnig gildi um starfsemi Fiskistofu lög nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, lög nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lög nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Á árinu 2022 hafi verið lögfest ákvæði um inntak eftirlitsheimilda Fiskistofu í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 36/1992, sbr. lög nr. 85/2022. Þar komi fram að Fiskistofa skuli annast framkvæmd laga um stjórn fiskveiða og eftirlit með fiskveiðum, svo sem nánar sé kveðið á um í lögum um það efni. Þannig verði að líta til ákvæða viðkomandi löggjafar um það hvað hafi falist í stjórnsýslueftirliti Fiskistofu. Lögin hafi að öðru leyti endurspeglað starfsheimildir stofnunarinnar, t.d. hafi þar verið gert ráð fyrir gjaldtöku vegna veru eftirlitsmanna í skipum. Lög nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, séu hluti af þeim lögum sem Fiskistofa gegni hlutverki að hafa stjórnsýslueftirlit með, sbr. einkum IV. kafla laganna sem fjalli um framkvæmd og viðurlög. Í 13. gr. laga nr. 57/1996 komi fram að Fiskistofa og eftirlitsmenn í hennar þjónustu annist eftirlit með framkvæmd laganna. Geti Fiskistofa enn fremur leitað aðstoðar lögreglu og Landhelgisgæslunnar í því skyni. Í athugasemdum í frumvarpi við til laganna komi fram að í samræmi við lög nr. 36/1992 sé kveðið á um að Fiskistofa skuli hafa eftirlit með framkvæmd laganna, svo og eftirlitsmenn í þjónustu hennar. Tekið sé fram að þessir aðilar hafi sömu heimildir til þess að rækja þetta eftirlitshlutverk og komi fram í lögum um stjórn fiskveiða, sbr. einkum 3. mgr. 17. gr. laganna. Þá sé kveðið á um að Fiskistofa geti leitað aðstoðar lögreglu og Landhelgisgæslu í þessu skyni. Í 13. gr. sé nú í 2. mgr. vísað til þess að Fiskistofa geti ákveðið að setja eftirlitsmenn um borð í skip og samkvæmt 4. mgr. skuli þeir hafa stöðu samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Í greininni felist að ákvörðun um að veiðieftirlitsmaður komi um borð ráðist af því að aflasamsetning viðkomandi skips gefi tilefni til þess að viðhafa sérstakt eftirlit. Ekkert í gögnum máls þessa sé um að sambærileg sjónarmið hafi ráðið því að Fiskistofa hóf eftirlit sem beindist sérstaklega að viðkomandi skipi. Í 3. mgr. sé gerð grein fyrir eftirliti gagnvart vigtunarleyfishafa. Í 10. gr. laga nr. 79/1997 sé fjallað um störf eftirlitsmanna Fiskistofu. Þar sé gerð grein fyrir því að eftirlitsmönnum sé heimilt að fara í veiðiferðir með fiskiskipum. Í 18. gr. laga nr. 116/2006 sé fjallað um starfsemi eftirlitsmanna. Þar komi fram að jafnframt því sem eftirlitsmenn skuli sinna verkefnum samkvæmt 10. gr. laga nr. 79/1997 og eftirliti með reglum settum samkvæmt heimild í þeim lögum skuli þeir fylgjast með löndun, vigtun og vinnslu afla. Hlutverk eftirlitsmanna Fiskistofu sé skýrt samkvæmt lögum og það standist enga skoðun að Fiskistofu hafi verið heimilt að fela þeim víðtækari eftirlitsstörf. Löggjöf geri ekki ráð fyrir starfsemi eftirlitsmanna við beitingu forvirkra rannsóknarheimilda í landi að á hafi úti. Í framangreindum lagaákvæðum felist að störf eftirlitsmanna Fiskistofu um borð í skipum byggi í grunninn á lögum nr. 79/1997. Störf eftirlitsmanna Fiskistofu vegna löndunar, vigtunar og vinnslu afla byggi á 18. gr. laga nr. 116/206. Störf eftirlitsmanna Fiskistofu vegna laga nr. 57/1996 veiti eftirlitsmönnum ekki víðtækari valdheimildir, en í lögunum sé afmarkað hvernig skuli staðið að því að ákveða að setja veiðieftirlitsmann um borð í skip auk þess sem fjallað sé um eftirlit með vigtunarleyfishöfum. Þótt Fiskistofa hafi eftirlit með framkvæmd laga nr. 57/1996 sé það eftirlit bundið við starfsheimildir sem gildi um stofnunina og almennar meginreglur sem gildi um stjórnvöld og starfsemi á sviði löggæslu. Það athugist að lög um stjórn fiskveiða geri ráð fyrir að heimilt sé að setja fjareftirlitsbúnað í skip, sbr. 4. mgr. 10. gr. laganna. Sú heimild virðist ekki hafa þýðingu fyrir mál þetta. Í 13. gr. laga nr. 57/1996 sé gert ráð fyrir að Fiskistofa geti leitað aðstoðar lögreglu og Landhelgisgæslunnar. Landhelgisgæslan starfi eftir lögum nr. 52/2006. Stofnunin hafi það hlutverk að sinna löggæslu á hafi úti. Samkvæmt 4. gr. laganna séu verkefni Landhelgisgæslunnar m.a. löggæsla á hafinu, þ.m.t. fiskveiðieftirlit og aðstoð við löggæslu á landi í samvinnu við ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra. Eftirlit með framkvæmd löggjafar á hafi úti sé löggæsluverkefni. Löggæsla á hafi sé verkefni Landhelgisgæslunnar. Stjórnsýslueftirlit Fiskistofu á árinu 2022, fyrir gildistöku laga nr. 85/2022, hafi ekki veitt heimildir til almennrar löggæslu á hafi úti með því að láta fjarstýrð loftför fljúga frá landi. Slík verkefni hafi fallið utan hlutverks og valdsviðs Fiskistofu. Hafa beri í huga að eftirlitshlutverk Fiskistofu og eftirlitsmanna stofnunarinnar sé bundið við störf um borð í fiskiskipum og þar sem afli sé meðhöndlaður. Fiskistofa hafi ekki almennar heimildir til fiskveiðieftirlits á hafi úti, heldur sé það falið Landhelgisgæslu Íslands. Gögn málsins beri með sér að veiðieftirlitsmenn hafi verið við eftirlit við Húsavíkurhöfða. Slík eftirlitsstarfsemi samræmist ekki lögum, enda hafi lögreglan almennt löggæsluhlutverk á landi. Þá hafi starfsemi Fiskistofu í raun verið einhvers konar forvirk rannsókn í því skyni að kanna hvort lögbrot gætu verið til staðar án þess að sérstakt tilefni væri til þess. Bent sé á að lögreglan á Íslandi hafi ekki slíkar heimildir. Augljóst sé að slík starfsemi verði að byggja á skýrum lagagrundvelli, sem ekki hafi verið til staðar fyrir júlí 2022.

Bæði upphaf stjórnsýslumáls, rannsókn þess og málsmeðferð Fiskistofu samræmist ekki lagaheimildum sem hafi gilt um starfsemi Fiskistofu fyrir setningu laga nr. 85/2022. Beri því að fella málið niður, enda leiði slíkt af meginreglum stjórnsýsluréttar að ólögmætar rannsóknaraðgerðir stjórnvalds verði ekki taldar grundvöllur ákvarðanatöku í stjórnsýslumáli viðkomandi stjórnvalds. Slík lögskýring skapi réttaróöryggi og breyti þjóðfélaginu. Á sama tíma sé sérstök löggjöf og strangar kröfur til myndavélaeftirlits vegna löggæslustarfsemi. Við skoðun á samskiptum Fiskistofu við Persónuvernd, sé ljóst að Persónuvernd hafi ekki tekið efnislega afstöðu til þeirrar vinnslu sem Fiskistofa hóf. Það hafi Persónuvernd hins vegar gert nú, sbr. úrskurð í máli frá 28. mars 2023. Einnig komi þar fram það skilyrði að vinnsla Fiskistofu verði að vera nauðsynleg. Ljóst sé að skilyrðið sé ekki uppfyllt, enda hafði löggjafinn ekki gert ráð fyrir því að Fiskistofa sinnti eftirlitshlutverki sínu með dróna á þessum tíma. Fiskistofu hafi verið fengnar aðrar heimildir, sem afmarki hvaða úrræði hafi verið nauðsynleg og ásættanleg út frá meðalhófssjónarmiðum. Fiskistofa hafi getað sett veiðieftirlitsmann um borð ef tilefni þótti til. Notkun dróna verði einnig talin í ósamræmi við meginsjónarmið um breytingu stjórnsýsluframkvæmdar. Fiskistofa heyri undir ráðherra sem hafi yfirumsjón með skýringu löggjafar um starfsemi stofnunarinnar. Ráðherra sé m.a. ætlað það hlutverk að setja reglugerð um skipulag og starfsemi Fiskistofu, sbr. 3. gr. laga nr. 36/1992. Grundvallarbreytingar á eftirlitsstarfsemi hefðu kallað á samþykki ráðherra. Þá sé einnig vísað til 5. gr. laga nr. 36/1992 um staðfestingu ráðherra á gjaldskrá m.a. varðandi eftirlitsstarfsemi Fiskistofu. Gjaldskránni sé ætlað að ná til þjónustu og eftirlits sem Fiskistofu sé falið. Álykta verði að Fiskistofa geti ekki tekið upp nýjar eftirlitsaðferðir án þess að afstaða ráðherra liggi fyrir. Samkvæmt upplýsingum sem kærandi hafi fengið úr greininni sé ljóst að Fiskistofa hafi sent út fjölda bréfa um meint brottkast á fiski, þar sem byggt sé á myndbandsupptökum eftir að notkun dróna hófst, en fyrir gildistöku laga nr. 85/2022 sem hafi fyrst heimilað slíka starfsemi. Samkvæmt upplýsingum kæranda hafi stofnunin fellt niður fjölda af þeim málum. Það sé því eðlileg krafa út frá jafnræðisreglum að mál þetta verði jafnframt fellt niður.

Með tölvubréfi, dags. 26. júní 2023, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Í umsögn Fiskistofu, dags. 28. júní 2023, segir m.a. að Fiskistofa vísi til röksemda og niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar. Þá hafi úrskurður Persónuverndar, dags. 28. mars 2023, ekki þau áhrif að mati Fiskistofu að ákvörðun stofnunarinnar, dags. 12. maí 2023, verði felld úr gildi, enda hafi ákvörðun Fiskistofu í málinu ekki eingöngu byggt á gögnum sem aflað var með drónaeftirliti, þó svo sú eftirlitsaðferð sem viðhöfð var á umræddum tíma gæti hafa falið í sér frávik frá ákvæðum laga nr. 90/2018. Að mati Fiskistofu hefði niðurstaðan ekki orðið önnur jafnvel þó rannsóknaraðgerðir þær sem viðhafðar voru myndu teljast ólögmætar og leiði þar með ekki til ógildingar á ákvörðuninni sem hafi byggt að hluta til á þeim rannsóknaraðferðum, til stuðnings vitnisburði veiðieftirlitsmanna og skýrslna þeirra. Málsmeðferð Fiskistofu hafi því að mati stofnunarinnar ekki brotið gegn 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Fiskistofa hafni málatilbúnaði kæranda og telji að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun með vísan til forsendna hennar,

Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu í ljósritum: 1) Tilkynning um mál (andmælabréf), dags. 31. janúar 2023. 2) Athugasemdir kæranda og upplýsingabeiðni, dags. 22. febrúar 2023. 3) Svör Fiskistofu við upplýsingabeiðni, dags. 7. mars 2023. 4) Viðbótar athugasemdir kæranda og upplýsingabeiðni, dags. 23. mars 2023. 5) Svör Fiskistofu við seinni upplýsingabeiðni og ákvörðun send lögmanni kæranda, dags. 12. maí 2023. 6) Ákvörðun Fiskistofu (hin kærða ákvörðun), dags. 12. maí 2023. 7) Gögn máls 2022-05-31-1680. 7.1. Brotaskýrsla (frumskýrsla), dags. 31. maí 2022. 7.2. Atvikaskráning. 7.3. Ferill dróna og báts. 7.4. Lögskráning. 7.5. Upplýsingar um skip. 8) Gögn máls 2021-11-24-2860. 8.1. Brotaskýrsla (frumskýrsla), dags. 29. nóvember 2021. 8.2. Atvikaskráning. 8.3. Ferill dróna og báts. 8.4. Lögskráning. 8.5. Upplýsingar um skip.

Með tölvubréfi, dags. 29. júní 2023, sendi ráðuneytið umsögn Fiskistofu, dags. 28. júní 2023, til lögmanns kæranda og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við hana.

Með tölvubréfi, dags. 5. júlí 2023, bárust ráðuneytinu athugasemdir frá lögmanni kæranda við umsögn Fiskistofu. Þar segir m.a. að ljóst sé að myndbandsupptaka sem aflað var með ólögmætum hætti samkvæmt persónuverndarlöggjöf og án lagastoðar löggjafar um málefni Fiskistofu sé grundvöllur ákvarðanatöku Fiskistofu, enda ekki öðrum gögnum til að dreifa. Það sé fyllilega óforsvaranlegt að ákvarðanataka sem byggi á gögnum sem aflað sé í svo miklu ósamræmi við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar verði staðfest.

 

 

Rökstuðningur

I.  Stjórnsýslukæra í máli þessu barst matvælaráðuneytinu 30. maí 2023. Hin kærða ákvörðun er dags. 12. maí 2023. Kærufrestur í málinu sem er einn mánuður, sbr. 18. gr. laga nr. 57/1996, sbr. 24. gr. laga nr. 116/2006 var því ekki liðinn þegar stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu. Kæra í máli þessu barst matvælaráðuneytinu 30. maí 2023, eða áður en leyfissvipting hófst samkvæmt hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 12. maí 2023. Leyfissvipting samkvæmt hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu hófst síðan 12. júní 2023. Einnig hefur svipting leyfa til veiða í atvinnuskyni samkvæmt 15. gr. laganna ítrekunaráhrif í tvö ár, sbr. 19. gr. laga nr. 57/1996. Þá varðar slík leyfissvipting mikilvæga hagsmuni á sviði atvinnuréttinda. Þegar litið er til þessa er það mat ráðuneytisins að kærandi hafi lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þessa máls þótt tímabili leyfissviptingarinnar sé lokið. Kæran verður því tekin til efnismeðferðar.

 

II.  Um veiðar og vigtun sjávarafla gilda lög nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Í 5. gr. laganna segir að öllum afla sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti haldi sig í efnahagslögsögu Íslands skuli landað innanlands og hann veginn í innlendri höfn. Í 2. mgr. 2. gr. laganna segir að skylt sé að hirða og landa öllum afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa. Reglan er áréttuð í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 57/1996 en þar segir að öllum afla sem íslensk skip veiði úr stofnum sem að hluta til eða öllu leyti haldi sig í efnahagslögsögu Íslands skuli landað innanlands og hann veginn í íslenskri höfn. Í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur fram sú meginregla að allur afli skuli veginn á hafnarvog í löndunarhöfn þegar við löndun aflans. Í 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 745/2016, um vigtun og skráningu sjávarafla, segir að skipstjóri skips beri ábyrgð á því að afli skipsins sé veginn samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar. Í 2. mgr. sömu greinar segir að afli skuli skráður til aflamarks á veiðiskip. Í 1. mgr. 7. gr. sömu reglugerðar segir að allur afli skuli veginn á hafnarvog í löndunarhöfn þegar við löndun aflans og skuli vigtun vera lokið innan tveggja klukkustunda frá því að löndun lauk. Skuli við vigtunina nota löggilta vog í eigu viðkomandi hafnar. Vigtun skuli framkvæmd af starfsmanni hafnar sem hlotið hafi til þess löggildingu. Einnig kemur fram í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, að Fiskistofa skuli annast framkvæmd laga um stjórn fiskveiða og eftirlit með fiskveiðum, svo sem nánar sé kveðið á um í lögum um það efni. Þá er þar ákvæði um heimild Fiskistofu til að nota fjarstýrð loftför við eftirlit sitt en síðastgreint ákvæði var lögfest með lögum nr. 85/2022 sem tóku gildi 14. júlí 2022.

 

III. Áhöfn skipsins [C]hefur orðið uppvís að brottkasti í tvígang úti fyrir Húsavík í Skjálfandaflóa, annars vegar 23. nóvember 2021 og hins vegar 30. maí 2022. Hin kærða ákvörðun Fiskistofu í máli þessu er byggð á skýrslum veiðieftirlitsmanna Fiskistofu, dags. 29. nóvember 2021 og 31. maí 2022, sem grundvallast á upptökum úr myndbandsupptökum sem teknar voru með aðstoð dróna. Á umræddum myndbandsupptökum sést þegar 75 fiskar, sem skylt er að hirða og landa, falla útbyrðis. Málatilbúnaður Fiskistofu byggir einnig í grunninn á vitnisburði tveggja veiðieftirlitsmanna sem urðu vitni að brotum skipstjóra fiskiskipsins [C]í beinu streymi. Veiðieftirlitsmenn Fiskistofu eru sérfróðir opinberir starfsmenn sem starfa samkvæmt sérstöku erindisbréfi. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að til staðar séu nokkur þau atriði eða atvik sem geta leitt til þess að draga beri frásögn þeirra í efa í þeim tilvikum sem hér um ræðir. Þær myndbandsupptökur sem voru fyrirliggjandi í máli kæranda voru til stuðnings öðrum gögnum sem sýndu fram á refsiverða háttsemi áhafnar í umræddri veiðiferð. Um er að ræða hlutlæg sönnunargögn sem hafa töluverða þýðingu við úrlausn málsins en þau eru einungis til stuðnings öðrum gögnum sem gerð er grein fyrir hér að framan. Leiða þau þar með ekki til ógildingar á ákvörðuninni þótt lagaheimild til notkunar dróna hafi ekki verið lögfest fyrr en með lögum nr. 85/2022, sem tóku gildi 14. júlí 2022.

Þá er það afstaða ráðuneytisins að aðrar skýringar sem hafa komið fram í málatilbúnaði lögmanns kæranda séu ekki með þeim hætti að þær raski þeim grundvelli sem hin kærða ákvörðun Fiskistofu er byggð á.

Með vísan til málsatvika og eðlis brota, vitnisburðar veiðieftirlitsmanna, gagna málsins og þess sem að framan greinir er það niðurstaða ráðuneytisins, að áhöfn fiskiskipsins [C], hafi brotið gegn 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar með því að hafa ekki hirt og landað þeim tilgreinda afla sem að framan sé fjallað um og komið hafði í veiðarfæri, í tveimur veiðiferðum skipsins, 23. nóvember 2021 og 30. maí 2022.

 

IV. Brot gegn lögum nr. 57/1996 og reglum settum samkvæmt þeim varða viðurlögum samkvæmt IV. kafla laga nr. 57/1996.

Í 15. gr. laga nr. 57/1996 er svohljóðandi ákvæði: „Fiskistofa skal svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laga þessara eða reglum settum samkvæmt þeim.

Við fyrsta brot, sem varðar sviptingu veiðileyfis, skal leyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekuð brot skal svipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en eitt ár.

Við fyrsta minni háttar brot skal Fiskistofa, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu.“

 

Þessu ákvæði var breytt með 2. gr. laga nr. 163/2006, þar sem 3. mgr. var bætt við greinina. Í greinargerð með frumvarpi til laganna, sbr. Alþingistíðindi A-deild, 133. löggjafarþing 2006-2007, þskj. 235, 232. mál, kemur fram í athugasemdum við 2. gr. að ljóst sé að svipting leyfis til veiða í atvinnuskyni, jafnvel þótt um lágmarkstíma sé að ræða, þ.e. sem fyrir lagabreytinguna var tvær vikur, geti verið mjög íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi útgerð og þá sem í hennar þágu starfi. Með vísan til þess var með frumvarpinu lagt til að 15. gr. laga nr. 57/1996 yrði breytt þannig, að þar yrði kveðið á um að þegar um minni háttar brot væri að ræða og hlutaðeigandi útgerð hefði ekki áður gerst brotleg við ákvæði laganna eða reglur settar samkvæmt þeim, skyldi Fiskistofa bregðast við með öðrum hætti, þ.e. með því að veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu. Einnig segir í athugasemdunum að við ákvörðun þess hvort um minni háttar brot teljist vera að ræða, í skilningi þessara lagaákvæða, væri eðlilegt að litið yrði til þess m.a. hvort ætla megi að brot hafi í för með sér umtalsverðan ávinning fyrir hlutaðeigandi útgerð og/eða tengda aðila, hversu mikilvægum hagsmunum brot ógnaði og hvort það hafi verið framið af ásetningi eða gáleysi. Þá var þar tekið fram að brot gegn reglum varðandi veiðar, afla og aflaheimildir séu oft þannig að erfitt sé að skera með óyggjandi hætti úr um hvort þau hafi verið framin af ásetningi eða gáleysi. Það atriði eitt og sér geti því almennt ekki ráðið ákvörðun þess hvort brot teljist vera minni háttar. Á hinn bóginn þyki eðlilegt að láta ítrekuð brot gegn umræddum lögum og reglum varða sviptingu veiðileyfis, enda þótt um minni háttar brot í skilningi laganna kunni að vera að ræða.

Í framangreindu ákvæði 15. gr. laga nr. 57/1996 kemur fram að Fiskistofa skal svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim. Við fyrsta minni háttar brot skal Fiskistofa hins vegar þrátt fyrir framangreint ákvæði veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu.

 

V.  Í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 segir að þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. sama ákvæðis skuli Fiskistofa veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu vegna fyrsta minniháttar brots. Við mat á því hvort um minniháttar brot sé að ræða sé m.a. litið til þess hvort ætla megi að brot hafi í för með sér umtalsverðan ávinning fyrir hlutaðeigandi útgerð og/eða tengda aðila, fjölda brota og hversu miklum hagsmunum brot ógni og hvort það hafi verið framið af ásetningi eða gáleysi. Að sama skapi teljist brot meiriháttar ef verknaður sé framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auki mjög á saknæmi brots.

Við mat á alvarleika brota leit Fiskistofa til fjölda fiska sem varpað var fyrir borð í umræddri veiðiferð, þ.e. 54 fiskar á 44 mínútum þann 23. nóvember 2021 og 21 fiskur á 13 mínútum þann 30. maí 2022. Jafnframt leit Fiskistofa til þess að um tvær aðskildar veiðiferðir var að ræða þar sem brotin voru framin á stuttum tíma í hvort sinn og þrátt fyrir fyrri leiðbeiningu Fiskistofu. Myndbönd þau sem liggja fyrir í málinu sýna með skýrum hætti framgöngu skipverja um borð í umræddum veiðiferðum. Einnig er í hinni kærðu ákvörðun horft til þess hvernig verknaðinum sjálfum var háttað, þeim hagsmunum sem verknaðurinn beindist að og verknaðaraðferðar í umrætt sinn þar sem mátti sjá skipverja kasta fiskum ítrekað útbyrðis eftir að þeir voru dregnir inn fyrir borðstokk eða berja/losa þá af krókum með haka. Þá ber kærandi ábyrgð á því að veiðar fiskiskipa í hans útgerð séu í samræmi við gildandi lög og reglur og þá sérstaklega að framkvæmd veiða brjóti ekki í bága við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996. Það er á ábyrgð útgerðaraðila, að verklag við veiðar sé í samræmi við lög, um borð í þeim fiskiskipum sem hann gerir út og að allur aðbúnaður og tækjakostur sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Um alvarleg brot er að ræða, framin á skömmum tíma og til hagsbóta fyrir kæranda og voru brotin meiriháttar með hliðsjón af magni afla sem varpað var frá borði og fjölda veiðiferða.

Í ljósi þessa telur ráðuneytið að í áðurnefndum veiðiferðum sem lauk með löndunum þann 23. nóvember 2021 og 30. maí 2022 í Húsavíkurhöfn hafi verið brotið gegn 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, sbr. og 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 745/2016. Umrædd brot varða viðurlögum hvort sem um er að ræða ásetning eða gáleysi. Þegar virt eru atvik máls þessa í heild sinni eins og þeim er lýst í gögnum málsins er það mat ráðuneytisins að brot kæranda geti ekki talist minni háttar í skilningi 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 heldur hafi Fiskistofu borið að beita 2. mgr. 15. gr. sömu laga. Í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 segi að við fyrsta brot, sem varði sviptingu veiðileyfis, skuli leyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots.

Með vísan til framanritaðs og gagna málsins og þegar af þeim ástæðum sem þar koma fram fellst ráðuneytið á að Fiskistofu hafi verið rétt að svipta skipið [C]leyfi til veiða í atvinnuskyni í tvær vikur. Samkvæmt því ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 12. maí 2023, um að svipta skipið [C]leyfi til veiða í atvinnuskyni í tvær vikur og tekur ákvörðunin gildi frá og með 12. júní 2023.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 12. maí 2023, um að svipta skipið [C], leyfi til veiða í atvinnuskyni í tvær vikur og tekur leyfissviptingin gildi frá og með 12. júní 2023.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum